28.10.2011 | 10:53
Góður vinur kveður
Á lífsleiðinni hittir maður og kynnist helling af fólki. Sumt skilur eftir sig spor annað ekki. Held að óhætt sé að fullyrða að sá félagi er kvaddi í byrjun liðinnar þessarar viku, Sigurgeir Scheving, skilur eftir sig spor hjá mér sem ekki verða fyllt.
Fyrir nokkrum árum kom hann askvaðandi inn í prentsmiðju. Maður sem ég þekkti aðeins af afspurn, enda hann ekki af minni kynslóð. Auðvitað vissi maður hver hann var. Vel þekktur í bæjarfélaginu. Oft hafði ég séð hann á sviði hjá Leikfélaginu, já eða séð verk sem hann leikstýrði. Manninn þekkti ég ekkert, En eftir þessa heimsókn hans og beiðni um að við myndum prenta fyrir hann fór hann að koma oftar. Með okkur tókst þessi líka ágæti vinskapur. Sigurgeir var opinn og skemmtilegur karakter með skoðanir á mönnum og málefnum. Hann var afar fylginn sér, hann fó r í málin og þau voru kláruð. Dugnaðurinn og eljan í honum, og þeim hjónum reyndar, við rekstur bíósins, gistiheimila og rútuferða var með ólíkindum. Heimsóknir hans voru nær undantekningarlaust ansi skemmtilegar og fjörugar. Skipti engu máli hvort við vorum að tala um hugðarefni hans, mín, bæjarmál, landsmál, heimsmál, já eða bara liðið okkar - ÍBV. Það var ekki logn í kringum Sigurgeir. Enda lítið líf í eilífu logni.
Ég er ekki maður til að fjalla um lífsskeið Sigurgeirs enda þekkti ég hann ekki í mörg ár. Langar bara rétt aðeins að þakka fyrir mín góðu kynni af honum. Hann gaf mér mikið, ég vona að ég hafi nú stundum náð líka að gleðja hann á einn eða annan hátt. Aldrei stóð á því hjá honum að hrósa manni og klappa á bakið þegar hann var sáttur við skrif hjá manni. Já og hvetja mann til að halda áfram að standa í skrifum um hitt og þetta sem að maður vildi tjá sig um. Ekki vorum við samt alltaf alveg sammála. Gleymi því ekki þegar ég varð fertugur var það minnsta mál hjá honum að lána mér bíóið til að sýna U2 tónleikamyndbönd nokkur kvöld í röð.
Hlakka til að hitta Sigurgeir aftur. Er þess full viss að þá verður tekið upp skemmtilegt spjall.
Sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til Ruth, barna, stjúpbarna og annarra ættingja.
Blessuð sé minning Sigurgeirs Scheving.
Hvíl í friði vinur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.