Guðrún Vigdís Sveinbjarnardóttir - minning

gudrun sveinbjLangar að minnast hennar ömmu minnar sem lést í síðustu viku og verður jarðsungin í dag frá Landakirkju í Vestmannaeyjum. Þetta eru fátækleg orð um konu sem var mér kær og gaf mér mikið. Hún var fædd 15. mars 1927 en lést að morgni þess 7. janúar sl.

Þá hefur blessunin hún amma Gunna kvatt fyrir fullt og allt, ættarhöfðinginn sjálfur. Einhvern veginn er það þannig í lífinu að maður leyfir sér að taka sumum hlutum sem sjálfgefnum og að þeir eigi helst aldrei að breytast, en auðvitað kemur að því að við öll kveðjum og nú er tími ömmu komin, árin að verða 92. Síðustu árin hafði hún dvalið á sjúkrahúsinu og það var bara alls ekki hennar stíll, hennar sem stöðugt vildi vera með augu og fingur á púlsinum á því sem var að gerast í fjölskyldunni, já og víðar.Amma Gunna sem hefur verið við hlið mér alveg frá fæðingu og veitt ráðgjöf og blessun við ýmis þau verkefni sem að maður hefur tekið sér fyrir hendur á lífsleiðinni, þ.e.a.s. ef eftir því var leitað. Þátttaka hennar í uppeldi mínu hófst strax á fyrstu metrunum þegar að maður var í pössun á Heimagötu 15 og var tjóðraður við staur í sandkassann þar sem að maður dvaldi langdvölum og þar á undan lá maður á teppi innandyra og góndi út í loftið, en hún var mætt um leið og maður lét í sér heyra. Hádegisverður á Höfðaveginum veturna sem að maður var í 6-9 bekk var fastur punktur í tilverunni og það var á þeim tíma sem að kjöt í karrý og vænn skammtur af hrísgrjónum komst í upáhald og er enn,  en alltaf var nú jafn notalegt að koma þarna í mat og létt spjall áður en að skóladagurinn hélt svo áfram. Það var nú á einum af þeim dögum sem að ég fór alla leiðina heim að afloknum skóla sem að fregnin hafði borist af andláti afa Gísla í Þýskalandi, þá var haldið beint á Höfðaveginn og það er eina skiptið sem að eitthvað sem ekki var gaman að takast á við tengdist heimsóknum mínum á Höfðaveginn.Þeir eru svo miklu fleiri hlutirnir sem að maður rifjar upp með bros á vör frá tímum okkar saman, hvernig  var t.d. með alla þá tíma sem að fóru í að leggja kapal, þeir skyldu sko ganga upp, og svo var skipt í þann næsta. Prúðuleikararnir í lit, litasjónvarpið var nú undur á sínum tíma, og mikið á sig lagt til að missa ekki af þeim á Höfðaveginum. Skemmtilegt og fróðlegt spjall um heima og geyma, fara með bænirnir fyrir svefninn, úpps og ekki má gleyma dönsku blöðunum og Andrési Önd og félögum allt er þetta á meðal hluta sem tengdir eru þér órjúfanlegum böndum og vekja upp góðar minningar. Já eða umræðan um það að maður yrði að búa á stað þar sem að maður sæi til sjávar því annars liði manni eins og þorski á þurru landi, hvað við vorum nú sammála um það.Eitt af því sem að mér þótti alltaf vænt um var að mæta þér á ferðinni um bæinn með einn af þínum forláta túrbönum á höfðinu þannig að þú varst auðþekkjanleg hvert sem að þú fórst. Þetta var sko þitt vörumerki. Við kölluðum þig stundum “fakírinn á joggingskónum” kannski ekki allir sem höfðu kímnigáfu fyrir því en við höfðum það, og það nægði.Elsku besta takk fyrir mig og mína, takk fyrir allt í gegnum tíðina, leiðsögnina, stuðninginn, hvatninguna, alla gleðina og nú sorgina,  ég bý að þessu öllu og er klárlega betri maður fyrir vikið. Bið svo að heilsa afa Gísla þegar að þú hittir hann. Hvíl í friði mín kæra.Gísli Hjartar

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband