Tár eður ei!

Mér þykir sárt að þurfa að horfa upp á það að Björgvin G Sigurðsson standi okkur til boða í þessu kjördæmi, hefði viljað sjá hann taka sömu afstöðu og Árni Matt og Lúðvík Bergvins. og hreinlega draga sig í hlé, trúi því ekki fyrr en á reynir að fólk telji hann bara í góðum gír og skýran valkost eftir að hafa verið í brúnni þegar þjóðarskútan sigldi í strand - ekki tók hann neitt á sig við strandið og dvaldi í góðu yfirlæti um borð eins og ekkert hefði í skorist um stund en hljóp svo frá borði veifandi hvítum vasaklút rétt áður en  Skipstjóri og stýrimaður ætluðu að gera hann aftur að óbreyttum háseta - nú riðst hann fram og reynir að telja fólki trú um að það eigi ekki að refsa honum fyrst hann hljóp frá borði!!!!  Ég hefði viljað sjá alla aðra frambjóðendur stefna á efsta sætið fyrst Björgvin lítur svona á málið. Þekki ekki alla aðra frambjóðendur þarna en þekki Andrés og Guðrúnu af góðu einu, sem og Róbert en finnst að hann hefði átt að bjóða sig fram gegn Björgvin í efsta sætið fyrst að hann fór á annað borð fram. Skilst að þessi Oddný hafi lítið sést í baráttunni en líst svo sem ágætlega á þennan Skúla frá Keflavík og svo er þarna ein sem vill heim alla leið frá Brussel, Anna Margrét hún hefur það allavega sér til tekna að vera ættuð úr Eyjum.

Atli Gísla er held ég að öðrum ólöstuðum öflugasti þingmaður kjördæmisins, eins og staðan er í dag, og hver veit nema að Jórunn hans Einars Fidda verði ofarlega í prófkjöri þeirra vinstri Grænna - held að hjá VG sé sama og hjá Samfylkingunni að það verður kynjaskipting í efstu sætum - ekki það að ég sé eitthvað sérstaklega hlynntur svoleiðis, hef alltaf verið hlynntur því að sá sem fær flest atkvæði á að vera efstur og svo framvegis.

Eygló Harðar hlýtur að klára þennan Framsóknarlista, kannski að Bryndís Gunnlaugs, sem ég þekki aðeins af góðum störfum næli í annað sætið eða kannski að dýralæknirinn Sigurður Ingi deyfi allt liðið og skjótist í annað sætið? Þekki ekki nóg af öðrum þarna en ljóst er að endurnýjunin virðist ætla að verða mest hjá Framsókn og það eru margir um hituna og getur væntanlega allt gerst. En Eygló hefur átt fína spretti síðan henni var hleypt inn á þing í upphafi hrunsins.

Íhaldið rembist við að breyta og þar hefði ég personulega viljað sjá Kjartan Ólafs og Árna samsveitung minn Johnsen draga sig í hlé en þeir vilja berjast áfram - við sjáum hvort þeim verður kápan úr því klæðinu. Björgu Guðjóns sá ég bregða fyrir í sjónvarpinu um daginn meira hef ég ekki séð til hennar, personulega líst mér best á Ragnheiði Elínu af þeim sem sækjast eftir toppsætinu, hef þá trú að ungt fólk sem að vill breytingar á listanum muni flykkjast á bak við hana. Unnur Brá sveitarstjóri er þarna hef svo sem ekki heyrt mörg styggðaryrði um hana, ekki frekar en Íris Róberts félaga minn í Eldheimanefndinni hér í Eyjum, ung og áhugasöm og full af orku - vonandi gengur henni vel, veit að þó að við Eyjamenn séum ekki stór partur af kjördæminu þá er hérna blátt samfélag sem styður sitt fólk og því gæti húns korað hátt sem og dugnaðarforkurinn Grímur Gíslason sem en er með í baráttunni, hef þá trú að hann nái sínum langbesta árangri að þessu sinni.

Athyglisvert er að þó ekki sé um neitt prófkjör að ræða hjá Frjálslyndum að þá er ekki stafur um þá í þessari umfjöllun en reikna með að Grétar Mar taki fyrsta sætið þar - Georg Arnarsson sjómaður og Eyjapeyji hefur sagst sækjast eftir öðru sætinu og kannski að hann hreppi það, en um aðra þarna veit ég hvorki haus né sporð.

Hafa ber í huga að ég er staddur í Eyjum og þekki ekki allt þetta ágæta fólk sem er að bjóða sig fram vítt og breytt um kjördæmið og Eyjarnar eru ekki stærsta sneiðin af kökunni, þó að sjálfsögðu kunni manni stundum að þykja svo vera, en vægi fólks í Eyjum getur verið þó nokkuð í svona prófkjörum. - Megi flestum þátttakendum í þessum prófkjörum ganga vel. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.