Jonas.is

Tek mig stundum til og lít  við á  www.jonas.is . Karlinn er bráðskemmtilegur penni og oft skellir maður upp úr yfir tilþrifunum lýsingunum og orðaleppunum og mikið er maður sammála karlinum. Í tilefni dagsins ætla ég að hnuppla hér fimm pistlum frá honum birta hér að neðan:

23.10.2009
Duglaust góðærislið
Hvað er Katrín Jakobsdóttir að gera, er hún að æfa brosið? Hvað er hálfur ríkisstjórnarflokkur Samfylkingarinnar að gera, er hann ekki í ríkisstjórn? Og stóra spurningin er: Hvar er Jóhanna? Ef ríkisstjórnin hunzkast ekki til að taka fast á móti stjórnarandstöðunni, tapar hún stríðinu. Lætur óvinum þjóðarinnar eftir að framleiða umræðuefni stjórnmálanna. Hvað er stjórnin að gera með kjördæmispotarana Jón Bjarnason og Kristján Möller? Hvað er Katrín Júlíusdóttir að hlaupa í flæmingi undan græðgisúlfum gjaldþrota verktaka og sveitarfélaga? Eru ráðherrar okkar meira eða minna duglaust góðærislið?

23.10.2009
Óvinir þjóðarinnar nr ...
Sérhagsmunahópar eru eðli sínu samkvæmt óvinir þjóðarinnar. Elztur og númer eitt í röðinni er landssamband útvegsmanna, sem áratugum saman hefur þaulæft grátkórinn. Síðan koma aðrar hagsmunadeildir í Sjálfstæðisflokknum, svo sem viðskiptaráð, samtök atvinnulífsins og samtök iðnaðarins. Þetta eru allt gæzlumenn sérhagsmuna og því óvinir þjóðarinnar. Mikilvægt er, að fólk rísi upp til varnar gegn þessum óvinum. Sérhagsmunir hafa bitið í skjaldarrendur í haust í skjóli máttleysis ríkisstjórnarinnar. Þar virtist löngum vera bara einn ráðherra á vakt, Steingrímur. Svona vaknið þið hin og grípið til vopna!

23.10.2009
Strikað yfir fortíðina
Sjálfstæðisflokkurinn lætur á þingi eins og tímatalið hafi byrjað í febrúar á þessu ári. Hann lætur eins og fortíðin sé ekki til. Eins og Davíð og Geir séu ekki á ábyrgð flokksins. Eins og Bjarni hafi ekki verið liðsforingi í hlaupinu fram af brúninni. Eins og Þorgerður Katrín sé ekki kúludrottning. Eins og Davíð og Árni Mathiesen hafi ekki sjálfir játað IceSave skuldina með undirskrift 15.11.2008. Þessi samræmda fjöldagleymska virðist koma sér vel í pólitík, því að stuðningsmenn flokksins sýnast sáttir. Þeir hafa líka gleymt atburðarásinni frá valdatöku Davíðs árið 1991 til hruns bankanna árið 2008.

23.10.2009
Siðleysingjar ráða ferð
Ástandið í þjóðmálaumræðunni er yfirgengilegt. Hrunstjórarnir sjálfir stýra henni með daglegum upphrópunum á Alþingi, studdir Íslandsbersum atvinnulífs. Fyrir sveitinni fer fyrrverandi þingflokksformaður hrunsins, kúludrottning hrunsins og sjóður níu í Glitni sáluga. Þau gera þetta í krafti nályktar af ríkisstjórninni. Þegar lömbin geta ekki lengur varið sig, finna rándýrin þefinn í loftinu. Ef ríkisstjórnin grípur ekki til vopna, verður hún kaffærð í umræðunni. Sem snýst um, að hrunið á vegum Sjálfstæðisflokksins sé í raun stjórninni að kenna. Hún þarf að fatta, að hún glímir við siðlaust lið.

Árni Páll rassskellti Gylfa
Árni Páll Árnason félagsráðherra vaknaði til lífs í dag. Tók auðmagnsvini Alþýðusambandsins og rassskellti þá á ársfundi þeirra í morgun. Sagði ekki koma til greina að verða við kröfu Alþýðusambandsins um, að gengið verði að afarkostum óforskammaðra kapítalista. Ríkisstjórnin muni ekki semja um óendanlega skattaafslætti. Hann talaði um grátkór og kveinstafi útgerðar og álbræðsla. Ítrekaði, að veiðiheimildir yrðu innkallaðar og komið á hóflegum auðlindaskatti. Tortola-Gylfi Arnbjörnsson og hinir frjálshyggju-gaurarnir í afvegaleiddu Alþýðusambandi fengu loksins að heyra það frá ríkisstjórninni.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband